Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Flutt yfir á DV með bloggið mitt
http://www.dv.is/blogg/skessulegt-raus

Auglýsingar

Það er svo áberandi hversu mikið þessi þjóð þarf á því að halda að fá, þó ekki væri nema smá snefil af tilfinningu fyrir því að það sé einhver að gera eitthvað sem vottar fyrir heiðarleika í að það er sársaukafullt að horfa upp á það

Ögmundur hafði varla stigið upp af mjúkri ráðherrastólasessunni þegar búið var að stofna facebook-grúbbu honum til stuðnings.
Bloggara sem lofuðu Ögmund streymdu um veraldarvefinn og manni leið pínulítið eins og maður þyrfti að útbúa tilbeiðsluhorn í stofunni að loknum vinnudegi.
……og eina sem hann gerði var að fylgja sannfæringu sinni.

Hversu sjúkt er það?

Nú hefur verið stofnuð grúbba þar sem Ögmundur er hvattur til að fara í forsetaframboð.

Þannig að niðurstaðan hlýtur að vera þessi:
Þið stjórnmálamenn, allir með tölu, nú er lag! Til að öðlast aðdáun og tilbeiðslu þá sem þið heitast kjósið frá hinum almenna Íslendingi ….. farið eftir sannfæringu ykkar.

Einfalt..ekki satt?

Ég var að koma úr bíó.
Verð að viðurkenna að ég varð fyrir pínu vonbrigðum en ég held að það sé vegna þess að hún var svolítið öðruvísi en ég átti von á. Held að þegar frá líður þá eigi hún eftir að sitja í mér.
Það er eitthvað við þetta undanfarna ár sem veldur því að ég fer í tilfinninga-rússíbana þegar ég horfi á atburðina svona í mynd.

Ég grét
Ég grét þegar ég horfði á aðfarir lögreglunnar gagnvart mótmælendum
Ég grét þegar Stulli og konan hans áttu móment þegar hann var að fara til Noregs
Ég grét þegar Eva Hauks var að pakka niður

Lára Hanna sat við hliðina á mér og laumaði til mín tissjú… held að hún hafi líka laumað nokkrum tárum.

En það sem þessi þjóð er búin að ganga í gegnum síðast liðið ár er alveg nokkurra tára virði.
Grunar að ég eigi eftir að fella nokkur í viðbót.

Ég er algjör heiðingi…en ég vona svo sannarlega að einhver æðri máttur blessi Ísland
Ekki veitir af

Þegar maður lítur til baka og virðir fyrir sér íslenskt mannlíf er engin hemja hvað við sum höfum látið spila með okkur. Það var ekkert til sparað þegar kom að því að fá fjöldann til að „hugsa rétt“
Það var maður sem benti mér á furðulega staðreynd á dögunum… og hún hitti mig beint í rolu-beinið

Þið munið nefnilega hann Ómar

Ég man hann fyrst sem jólasvein hoppandi og skoppandi í kringum jólatréð og sem lítinn skrýtinn karl sem söng skemmtileg barnalög
Svo man ég hann Ómar í Sumargleðinni, eitthvað sem sló þvílíkt í gegn hjá landanum.
Ég man hann sem frétta- og veðurfréttamann. Dagskrárgerðarmanninn sem færði okkur Stiklur og sýndi okkur Ísland og Íslendinga í nýju ljósi.
Ég man „Frúnna“ og hvernig Ómar sýndi okkur Ísland úr lofti

Ég man hann Ómar þegar allir höfðu sömu skoðun á honum.
Frábær náungi.

Svo fékk hann áhuga á umhverfisvernd og setti sig mjög upp á móti Kárahnjúkavirkjun.

Þá varð Ómar allt í einu argandi geðsjúklingur og það var „svo greinilegt af því að hann var svo ör“ og „gat ekki talað um neitt nema Kárahnjúka“.
Og þetta keyptum við, stór hluti þjóðarinnar

Maður sem alltaf hafði gefið sig út fyrir að elska landið sitt var allt í einu „raving lunatic“ af því að hann gerði eitthvað í því… eitthvað sem féll ekki að viðskiptalífi einhverra og alls  ekki að gróðrasjónarmiðum enn fleirri.

Þið munið hann Ómar,…er það ekki?

Ég skulda honum að minnsta kosti afsökunarbeiðni
En þú?

Jóhanna getur tafsað og tuðað þangað til hún verður blá í framan… það gerir ekkert fyrir mig.
Einu sinni fannst mér hún algjör nagli…en ég man ekki einu sinni hvers vegna mér fannst það.

Mín eigin stefna er þó nokkuð ljós þessum tímapunkti og ef ég ætti að setja hana í ræðu myndi hún hljóma einhvern veginn svona

Kæri Íslendingar og aðrar skessur
Nú hefur það verið ljóst um langt skeið að allar afskriftir lána eru til þess fallnar að koma fótunum undir mennina sem kipptu undan ykkur fótunum.
Það er gert m.a. til þess að þið hafir tækifæri til að vera að eilífu þakklát fyrir sjónhverfingarnar þegar þið haldið að þið hafið náð að rísa upp til hálfs…. þá getið þið beygt ykkur  í auðmýkt fyrir sömu mönnunum og ykkur  langar að sparka í sköflunginn á núna.
Auk þess hafa þessi jakkaföt verið í klíkunni hjá hinu opinbera í áratugi og ekki getur það risa batterí farið að skipta um lið og fara að standa með sótsvörtum helvítis almenningi!

Fyrir þessu eru allskonar ástæður – en engin góð, amk ekki fyrir svona aula eins og ykkur.

Bólugröfnu jakkafötin munu halda áfram að verða feitari og pattaralegri, þökk sé ykkur og ykkar bognu vinnufúsu bökum!

En það er ýmislegt sem svona bogin vinnufús og þrælsleg bök geta gert…. svona til að minnka nístandi sársaukann af stáltánni á skónum sem sparkar í ykkur liggjandi og emjandi.

Reynið að fremsta megni að forðast viðskipti við bólugröfnu sísparkandi jakkafötin!
Það mun ef til vill ekki skila ykkur miklu í budduna en það mun gefa ykkur smá reisn!
Og það skyldi engin vanmeta.

Auk þess er nokkuð ljóst að Íslendingar og aðrar skessur hafa ákveðið vald í buddunum sínum
Notið það!

Hið opinbera mun hvort sem er hirða af ykkur allt klink á næstunni svo það er eins gott að drífa í að nota budduvaldið áður en hið opinbera nappar af ykkur galtómum buddunum a líka

Hér eru engir háttvirtir né hæstvirtir… bara venjulegt pakk sem kann ekki við að láta þjösnast meira á sér…amk ekki þetta misserið

Ég skal steinhætta að versla mér Toyotur, Coke, dót í Lyf og Heilsu (á ekki Jón Ásgeir Lyfju) og ég skal steinhætta að gera ýmislegt…..
En getur einhver hjálpað til við að fá Ólaf Ragnar til að þegja?

Ég hef spjallað við hóp af fréttamönnum/kvikmyndagerðarmönnum frá tveimur löndum í síðustu viku. Báðir hóparnir höfðu nýlega verið á Bessastöðum að tala við þennan síblaðrandi forseta okkar.

Báðir hóparnir voru alveg gapandi bit á því hvað forsetinn sagði þeim og hversu ólík hans sýn á stöðu mála hérna væri
Samkvæmt Ólafi er ástandið stórlega ýkt. Við verðum komin á blússandi ferð inn í nýtt góðæri seinni hluta næsta árs og hérna er allt í fínasta lagi! 
Látum það vera þó að maðurinn bulli við þingsetningu…. við Íslendingar vitum að það er ekkert að marka manninn. En fólk utan landssteinanna veit ekki betur en að þetta sé alvöru forseti 

Á sama tíma er Ögmundur að bögglast við að tilkynna umheiminum að við séum í djúpum skít og einfaldlega of fá til að taka á okkur þessar klyfjar sem alþjóðasamfélagið gerir kröfur um að við tökum ábyrgð á

Og samkvæmt fréttum dagsins er forsetinn stórhættulegur með penna og blað líka.

Hjálp! Útaf með manninn!

Og þá kom að því. Vildi að ég gæti talið saman alla þá sem hafa verið að segja mér að ég sé svo svartsýn og neikvæð…….

Skjól afneitunar er fokið og við blasir ískaldur veruleikinn.

Kreppan hefur sýnt á sér klærnar svo um munar og spurning um vikur þangað til hún læsir þeim í þjóðina…eða amk stærsta hluta hennar. Langstærsti hluti þjóðarinnar mun finna fyrir þessum klóm í daglegu lífi sínu.

Ég veit ekki alveg hvað sumt fólk hefur átt von á að myndi gerast. Fækka utanlandsferðum úr tveimur í eina? Kaupa gallabuxur í Hagkaup í staðinn fyrir Sautján?

Hvernig hefur fólk hugsað sér að lifa af 40% af þeim ráðstöfunartekjum sem það hefur haft hingað til?
Hvernig ætla 10-15% fólks að halda haus þegar það hefur verið atvinnulaust mánuðum saman… og sumir nú þegar í næstum ár?

Hvernig ætlar „velferðarkerfið“ okkar að taka á þeim vandamálum sem eiga eftir að poppa hérna upp í stærðargráðum sem við höfum ekki séð áður?

Það er ískaldur vetur framundan hjá þessari þjóð og örvænting fyrrverandi valdhafa við að komast að kötlunum er svo mikil að þeim munar ekki um að koma með tvö þúsund milljarða í götóttum vösum heim.

Við þurfum að losa okkur við AGS í einum grænum. Koma þeirra hingað og loforð um peninga átti að vekja traust alþjóðasamfélagsins á okkur. Að þeir skuli núna neita að afgreiða þá peninga vegna Icesave deilunnar vekur tortryggni á okkur þarna úti og við megum ekki við því… nóg er hún samt

Byrjum á því að pakka Franek saman, setjum upp þjóðstjórn eða utanþingsstjórn… neyðarstjórn jafnvel.
Byrjum svo á byrjuninni og vinnum okkur upp úr þessu hægt og rólega.

Það á engin að þurfa að naga skósólanna sína á Íslandi